Hvolparáð
Við bjóðum upp á ráðgjöf og styðjum við hvert skref í ævintýri þínu með hvolpinum.


Hvolpurinn kemur heim

Nýtt heimili og ný fjölskylda. Stóri dagurinn runninn upp. Hvolpurinn kemur heim. Tilhlökkun, spenna og etv. smá áhyggjur hjá fjölskyldunni. Átta vikna hvolpur þekkir lítið heiminn. Hann kemur beint úr gotinu fer frá mömmu sinni og systkinum. Líf hans kollvarpast í einni andrá. En átta vikna hvolpur er tilbúinn að fara og kanna nýjar slóðir. Allt er spennandi. Þegar hvolpurinn kemur er að mörgu að hyggja. Plana verður komu hans svo allt gangi vel.

Hvolpurinn þarf ákveðinn griðarstað, bæli og helst búr. Hann þarf að sofa 12-18 klst. á sólarhring fyrstu vikurnar og því er mikilvægt að hann hafi næði. Búrið er gott til að húsvenja hvolpinn þ.e. að venja hann á að gera þarfir sínar úti.

Hvolpurinn þarf að hafa ákveðið leiksvæði sem gott getur verið að afmarka. Passa þarf vel að hvolpurinn komist ekki í illa frágengnar innstungur, rafmagnssnúrur eða hleðslusnúrur því það er honum eðlilegt að naga allt sem hann sér.

Stigar eru mjög slæmir fyrir liðina á litlum hvolpi. Ekki er æskilegt að fara í langa göngutúra. Mesta lagi 5-10 mín fyrst í stað. Fyrsta árið er gott að fara ekki í lengri göngutúra en 20-30 mín. Hann fær nægjanlega hreyfingu í leik fyrstu mánuðina.

Leikföng eru nauðsynleg og gott er að eiga eitthvað sem hann má naga t.d. kaðla sem eru góðir fyrir tennurnar. Þegar hvolpurinn er kominn heim þá er gott að hafa allt tilbúið. Bælið, búrið, vatns og fóðurskálar, ólar, líkamsbeisli og taum. Síðast en ekki síst er það mikilvægasta -
Ást og umhyggja.

Hundar eru hópdýr og miklar félagsverur. Þeir verða að tilheyra hópnum og þeim líður illa ef þeim finnst þeir vera útundan. Mikil ærsl með börnum geta haft slæm áhrif á hvolpinn í uppvextinum Á meðan hvolpurinn var í systkinahópnum með mömmu sinni tilheyrði hann þeim hópi. Hann er síðan tekinn út úr hópnum og þá er mikilvægt að nýja fjölskyldan hans taki vel á móti honum í nýja hópinn sinn. Við hjá Skotís höfum alltaf leyft okkar hundum að vera með okkur í öllu daglegu lífi hér á heimilinu og taka þátt í heimilislífinu. Við leyfum þeim að sofa inni hjá okkur fyrsta árið. Látum þá ekki vera eina afskipta í búri á nóttunni. Þegar hvolpurinn stækkar og þroskast þá byrjar hann sjálfur að finna sína staði þar sem hann getur hvílt sig. Kannski finnur hann herbergi þar sem hann getur dregið sig í hlé. Einhvers staðar út í horni, undir stól. eða við hurð. Þeir þurfa líka að fá "Time out" þegar þeir kjósa að vera í friði.

Gott er að venja hvolpinn strax við snertingu. Mikilvægt er að venja hvolpinn við að tennur séu skoðaðar. Gott er að æfa þetta reglulega. Munnurinn opnaður og þá getið þið notað orðið "tennur" þannig að hann venjist því. Gott er að bursta feldinn hans reglulega og venja hann strax á það. Óþarfi er að baða hvolpinn oft með sápu. Hann er með náttúrulega fitu í feldinum sem er nægjanleg til að hrinda óhreinindum frá. Gott er að nota hrós sem viðurkenningu og byggja þjálfun hans sem mest á hrósi. Notið hrósið óspart þegar vel gengur.

Hálsólar

Það eru til margar tegundir af ólum og fást þær í flestum gæludýrabúðum. Þar sem Golden hvolpur vex mjög hratt er líklegt að kaupa þurfi nokkrar ólar á líftímahundsins. Best er að kaupa ól sem hægt er að stækka og nauðsynlegt er á fyrstu mánuðum að skoða og víkka hálsólarnar amk. einu sinni í viku. Ólin þarf að vera stillt þannig að hún detti ekki af hálsi hundsins en verður samt að vera rúm þannig að hún hefti ekki öndun né nuddist mikið við húðina.

Merking er einnig mikilvæg og það er æskilegt að hundurinn beri alltaf nafnið sitt á áberandi stað helst í hálsólinni sem og símanúmer eigenda. Við vitum aldrei nema hundurinn týnist og þá munum við ekki sjá eftir að hafa hundinn merktan.

Taumar

Gott er að eiga kaðaltaum sem ekki er lengri en tveir metrar. Það er gerð krafa til þess að á slíkum taumum sé “stoppari” sem kemur í veg fyrir að taumurinn þrengi of mikið að hálsi hundsins. Mikilvægt er að kenna hundinum að ganga við hæl með slökum taumi. Annars geta göngutúrarnir breyst í stöðugt tog sem skemmir ánægjuna við göngutúrinn. Rúllukefli ætti ekki að nota nema einstaka sinnum og þá þegar hundurinn hefur lært að ganga við slakan stuttan taum. Rúllutaumur getur verið sérstaklega hættulegur þar sem búast má við hjólreiðafólki á miklum hraða. Skemmtilegast er að fara í göngutúra með hundinn lausan en hafa ber íhuga að að sleppa hundinum ekki þar sem hætta er á mikilli umgengni annars fólks, hestamanna eða ökutækja. Sumt fólk er mjög hrætt við hunda og sömuleiðis geta aðrir hundar verið skaðlegir lausum hundum. Það eru líka komnar frábærar lausnir eins og AirTag sem gerir okkur kleift að fylgjast með ferðum hundsins ef hann skyldi týnast.

Bólusetning

Förum varlega fyrstu vikurnar

Hvolpar fæðast með litla sem enga mótstöðu gagnvart veirum og bakteríum. Þau litlu mótefni sem þeir hafa fá þau úr mjólkinni frá mömmu sinni. Því er nauðsynlegt að hafa varann á fyrstu vikurnar eftir að þeir fæðast. Það fá engir að heimsækja okkar hvolpa fyrstu fjórar vikurnar hér hjá okkur nema þeir sem standa þeim allra næst. Fyrstu bólusetningu fá þeir 7 vikna og þá eru þeir varðir gagnvart algengustu veirusjúkdómum í hundum svo sem Parvo vírusnum sem er hundum mjög hættulegur. Önnur bólusetning verður þegar þeir verða 12 vikna gamlir. Fram að því er þörf á að fara varlega. Við ráðleggjum öllum að spritta sig á meðan á þessu tímabli stendur og sérstaklega ættu þau að spritta sig sem umgangast önnur gæludýr á þessum fyrstu 12 vikum í lífi hvolpsins. Ef hundur er fyrir á heimilinu þá er ráðlagt að láta hann sem minnst umgangast aðra hunda fram yfir aðra bólusetningu hvolpsins og alls ekki leyfa honum að hlaupa á opnum hundasvæðum. Fimm til sjö dögum eftir seinni bólusetningu ætti öllu að vera óhætt m.a. að taka þátt í hvolpanámskeiði en það er ekki ráðlagt fyrir aðra bólusetningu.

Fóðurskálar og Vatnsskálar

Hvernig skálar þarf ég fyrir hundinn minn?

Fóðurskálar
Hundurinn ykkar þarf tvær tegundir af skálum. Eina litla á meðan hann er hvolpur og aðra stóra þegar hann verður stærri. Við höfum prófað margar tegundir og erum hrifnust af stálskálum. Þær er auðvelt að þvo og ekki hægt að naga eins og plastskálarnar.

Vatnsskálar
Best er að nota stálskálar sem auðvelt er að þrífa. Vatnið á helst ekki að standa lengi í skálinni. Best er að skipta um vatn í skálinni amk. daglega.

Hagnýting Búra í Þjálfun og Öryggi Hvolpa

Búr eru mjög gagnleg fyrir margra hluta sakir. Hvolpurinn er öruggur í búri t.d. ef hann er skilinn einn eftir heima. Ferðabúr geta verið mjög góð ef ferðast á með hundinní bíl. Búrin eiga ekki að vera of stór og ekki of lítil. Þó þurfa þau að vera það stór að hvolpurinn geti staðið uppréttur í því snúið sér við og lagst. Ef búrin eru of stór þá er líklegra að hvolpurinn skipti búrinu niður í svæði og geri þarfir sínar í ákveðið svæði búrsins. Búr eru mjög gagnleg til að húsvenja hvolpa. Þannig höfum við húsvanið okkar hvolpa. Ekki er ráðlegt að hafa vatn eða mat í búrinu. Best er að gefa hvolpinum vatn strax og hann er búinn að pissa eftir að hann er tekinn úr búrinu. Meðan hvolpurinn er fyrir utan búrið er gott að hafa búrið opið en þá getur hann skotist inn og fengið sér lúr.

Að Húsvenja hvolp

Leiðbeiningar um að húsvenja hvolpa með búri

Okkur þykir best að nota búrið þegar venja á hvolp við að gera þarfir sínar úti. Setjum hvolpinn í búrið í þrjá tíma í senn. Um leið og við tökum hvolpinn úr búrinu þá förum við með hvolpinn út og reynum að fá hann til að pissa.  Fyrst í stað er best að halda á honum út og gefa honum smá tíma til að ljúka sér af. Gefum honum síðan 45 mín. til að leika sér áður en hann fer aftur í búrið. Ef þetta er gert (nokkurn veginn) alltaf á sama tíma þá er hvolpurinn fljótur að læra að gera þarfir sínar úti. Sömuleiðis á alltaf að fara út með hann strax eftir að hann hefur borðað. Ef þessari reglu er haldið þá tekur ekki nema 2-4 vikur að húsvenja hvolpinn þannig að hann geri sínar þarfir úti. Æskilegt er að alltaf sé farið með hann út um sömu hurð þegar hann þarf að pissa. Gott er að hrósa hvolpinum vel þegar hann hefur lokið sér af. Ef þessari föstu rútínu er haldið þá mun hvolpurinn verða mjög fljótur að átta sig á því að gera ekki sínar þarfir innandyra. Litlir hvolpar geta átt það til að vilja borða sinn eigin saur. Þetta er alveg eðlileg hegðun þótt hún virki frekar illa á okkur. Best er að fylgjast vel með hvolpinum og taka úrganginn úr honum strax og hægt er. Sömuleiðis ef hvolpurinn gerir sig líklegan til að borða úrganginn þá á að segja “Nei” með ströngum rómi. Þessi hegðun á að eldast af hvolpinum en það getur tekið smá tíma og krefst þolinmæði ykkar.

Hreyfing

Förum varlega í hreyfingu

Retriever hvolpar vaxa mjög hratt. Liðir og liðamót eru mjög viðkvæm á þessum tíma þar sem þau þroskast hægar. Áríðandi er að fara mjög varlega fyrstu tólf mánuðina í hreyfingu. Fara alls ekki í langa göngutúra. Hámark 15-20 mín. fyrstu tólf mánuðina. Sömuleiðis ber að forðast eins og heitan eldinn að láta hvolpinn innan við 12 mánaða fara upp og niður stiga og tröppur. Slíkt getur leitt til óafturkræfra skemmda á liðum. Eftir 12 mánaða aldur getið þið tekið hann með á Esjuna á hverjum degi.

Sýningar

Hverjar eru kröfur HRFÍ til sýningardeildar í ræktunarskyni

Æskilegt er að hundur sé sýndur amk. einu sinni í opnum flokki á hundaræktarsýningu hjá HRFÍ ef ætlunin er að rækta undan honum. Niðurstaða úr slíkri sýningu þar sem hundur fær VG (Very Good) eða Ex (Excellent) staðfestir að hundurinn hefur rétt hlutföll og rétta byggingu til að teljast góður fulltrúi tegundarinnar. Þessarar staðfestingar er krafist ef hundurinn á að eiga got sem er viðurkennt og mælt með af HRFÍ.

Hafðu samband
Ekki hika við að hafa samband fyrir frekari upplýsingar um ræktunina, hvolpana okkar eða bara til að ræða allt sem viðkemur Golden Retriever. Við erum hér til að hjálpa þér að finna fullkominn fjölskyldumeðlim. Sendu okkur línu á skotisgolden@gmail.com eða hafðu samband á facebook síðunni okkar.
Senda Tölvupóst