Saga Skotís Ræktunar

Hvar byrjaði ævintýrið okkar? 

Árið 2001 keyptum við fyrsta hvolpinn okkar. Hvolpinn kölluðum við Korpu og var hún með okkur allt til ársins 2013. Þar sem við búum í Grafarvogi við hliðina á Korpu ánni og rétt við Korpúlfsstaði þá lá beint við að skíra fyrsta hundinn okkar Korpu. Síðan eignuðumst við líka Korpúlf sem hefur alltaf átt heima rétt við Korpúlfsstaði.
Korpa var mjög skemmtilegur hundur. Gríðarlega kát og sjálfstæð en það þurfti að hafa talsvert fyrir því að hemja hana á yngri árum. Við ætluðum alls ekki að fara í neina ræktun á þessum tíma. Vorum bara að leita að góðum heimilishundi.  

Áhugi okkar jókst og við fórum að kynna okkur heilsufar Golden hunda á Íslandi. Ástandið var sannast sagna ekki gott. Stofninn var lítill og talsverður skyldleiki var meðal paraðra hunda. Mjaðmalos var algengt og aðrir sjúkdómar voru komnir inn í stofninn sem erfitt er að rækta út. Sú staðreynd og áhugi okkar á Golden hundum leiddi það af sér að við ákváðum að leggja okkar af mörkum til að bæta stofninn eða byggja upp nýjan stofn með þessum skemmtilegu heimilishundum.

Við fórum til upprunalands Golden Retrievera sem er Skotland og fundum viðurkennda ræktun sem átti sér langa sögu um gott geðslag og heilbrigði í ræktun. Þaðan kemur einmitt Skotís ræktunarnafnið okkar (Skotland-Ísland). Fundum Garbank Lislone ræktunina sem átti sér langa sögu góðra hunda sem höfðu líka náð langt á sýningum. Keyptum þar hana Esju sem við fluttum inn árið 2006. Nokkrir aðrir voru með svipaðar áætlanir og við þ.e. að flytja inn algjörlega ferskt “blóð” heilbrigðra hunda sem nota mætti sem grunn í slíkri ræktun. Við stofnuðum nokkur saman “Golden ráð” stilltum saman strengi okkar og ákváðum að vinna í sameiningu að þessu markmiði. Fluttum inn nokkra hunda og tíkur frá mismunandi löndum. Með þessu náðum við með samstilltu átaki að byggja upp nýjan heilbrigðari Golden stofn á Íslandi sem við búum enn að. Byggðum upp sterkan stofn m.t.t. lágrar tíðni á mjaðmalosi. Síðan þá höfum við í Skotís flutt inn tíkur og rakka frá ýmsum löndum þ.e. Austurríki, Ítalíu og Spáni. Við höfum átt heilbrigð og skemmtileg got með okkar ræktunarhundum. Allir þeir hundar sem við höfum flutt inn eru frá virtum og þekktum ræktendum í Evrópu. Með þessu náum við að byggja upp erfðabreytileika með góðum genum sem vonandi skila sér vel inn í íslenska stofninn. Þar liggur okkar metnaður.

Hafðu samband
Ekki hika við að hafa samband fyrir frekari upplýsingar um ræktunina, hvolpana okkar eða bara til að ræða allt sem viðkemur Golden Retriever. Við erum hér til að hjálpa þér að finna fullkominn fjölskyldumeðlim. Sendu okkur línu á skotisgolden@gmail.com eða hafðu samband á facebook síðunni okkar.
Senda Tölvupóst